Innlent

Rætt um eldamennsku í Hæstarétti

Sigurður Tómas Magnússon. Úr myndasafni.
Sigurður Tómas Magnússon. Úr myndasafni. MYND/Anton

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í Baugsmálinu, hefur í Hæstarétti í morgun farið yfir meintar ólöglegar lánveitingar Baugs til tengdra aðila sem Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, stjórnarformanni, Baugs er gefið að sök að hafa hlutast til um.

Alls er um að ræða átta ákæruliði sem meðal annars snúa að meintum ólöglegum lánveitingum til fjárfestingarfélagsins Gaums, sem er í eigu Baugsfjölskyldunnar, en sum lánanna voru til kaupa á hlutabréfum í Baugi samkvæmt ákæru.

Um eitt lánanna sagði Sigurður Tómas að út frá tölvupóstsamskiptum væri ljóst að Jón Ásgeir hefði ekki ætlað sér að greiða það til baka. Þá sagði hann lánið hafa haft áhrif á verðmæti Baugs sem almenningshlutafélags.

Enn fremur fjallaði saksóknari um meintar rangar tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands um afkomu Baugs og sagði tilkynningarnar til þess fallnar að blekkja seljendur og kaupendur hlutabréfa. Vitnaði hann til tölvupóstssamskipta milli Tryggva Jónssonar, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, og Stefáns Hilmarssonar, endurskoðanda félagsins, um að ná yrði hagnaði félagsins upp.

Þá impraði Sigurður Tómas á því að helstu sönnunargögn í málinu væru fundargerðir, bókhaldsgögn, ársreikningar og tölvupóstar. Enn fremur vitnaði hann til álits Jónatans Þórmundssonar lagaprófessors um að Jón Ásgeir hefði sem forstjóri Baugs sýnt af sér saknæman skort á eftirliti með athöfnum undirmanna sinna.

Þá benti saksóknari á að Jón Ásgeir hefði fylgst með ölumm lykiltölum í rekstri Baugs og þegar tölvupóstar í málinu væru skoðaðir fylltu þeir rækilega upp í myndina af brotum ákærða. Benti hann sérstaklega á póst undir yfirskriftinni eldamennska og sagði þar ekki um hefðbundna eldamennsku að ræða heldur það sem á ensku heitir ´cooking the books´sem vísar til bókhaldssvindls.

Reiknað er með að settur saksóknari flytji mál sitt í allan dag en á morgun er komið að verjendum þeirra Jóns Ásgeirs, Tryggva Jónssonar og Jóns Geralds Sullenberger, fyrrverandi viðskiptafélaga Baugsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×