Innlent

Segir varasamt að afnema verðtryggingu

Pétur H. Blöndal
Pétur H. Blöndal

Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, segir varasamt að afnema verðtryggingu líkt og Gísli Tryggvason, talsmaður Neytenda, talaði fyrir í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrr í kvöld. Gísli sagðist finna fyrir miklum stuðningi frá almenningi fyrir því að afnema verðtryggingu hér á landi.

,,Fulltrúi neytenda hlýtur að eiga að gæta hag skuldara og sparifjárseiganda en þarna er hann ekki að gæta hagsmuna sparifjáreigenda," segir Pétur og bætir við að verið sé að hlunnfara þá sem eru með óverðtryggðar bankabækur.

Pétur segir að kannanir sýni að eftir að vextir voru gefnir frjálsir hafi óverðtryggðir vextir yfirleitt verið hærri heldur en verðtryggðir. ,,Enda er það skiljanlegt þegar einhver á fjármagn og vill lána það út en þarf um leið að búast við verðbólguskoti eins og gerst hefur öðru hverju á Íslandi sem étur upp og eyðileggur sparnaðinn."

Pétur bendir á að það sé ekkert sem kemur í veg fyrir að fólk taki óverðtryggð lán til langs tíma sem bankarnir bjóða upp á. ,,Það er ekkert sem bannar manni að taka svona lán í dag en áhuginn er einfaldlega ekki til staðar."

Frétt Stöðvar 2 frá því í kvöld er hægt að sjá hér.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×