Erlent

YouTube nýr vettvangur hryðjuverkasamtaka

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Íslamskir öfgahópar líta nú í auknum mæli til myndskeiðavefjarins YouTube til útbreiðslu boðskapar síns.

Orðsending, sem nú fer sem eldur í sinu um vefsetur og tölvupósthólf samtaka herskárra múslima, kennir skref fyrir skref hvernig hlaða skuli myndskeiðum upp á myndskeiðavefinn YouTube sem sennilega er orðinn álíka nafntogað fyrirbæri og Google-leitarvélin á vefnum enda er YouTube í eigu Google.

Í orðsendingunni eru hryðjuverkahópar hvattir til að láta einskis ófreistað að sýna krossfarana verða fyrir áföllum þeim til háðungar eins og það er orðað. SITE Intelligence Group, sem fylgist með áróðursherferðum múslima, segir ritara orðsendingarinnar kalla eftir eins konar YouTube-innrás á vesturveldin en slíkt væri nýjung í flóru hryðjuverkasamtaka sem lengi hafa notað Netið sér til framdráttar.

Öfgarnar virðast þó vera í báðar áttir þar sem pakistönsk yfirvöld létu loka aðgangi að YouTube í mars eftir að þar birtist efni sem þeim þótti móðgun við Allah.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×