Innlent

Rökstuðningur ráðherra vekur upp spurningar

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Bjarni, til vinstri, að störfum fyrir íslensku friðargæsluna i Srí Lanka.
Bjarni, til vinstri, að störfum fyrir íslensku friðargæsluna i Srí Lanka.

Bjarni Vestmann segir rökstuðning utanríkisráðherra fyrir ráðningu Ellisifjar Tinnu Víðisdóttur í stöðu forstjóra Varnarmálastofnunar vekja fleiri spurningar en svör.

„Miklu einfaldara hefði verið að auglýsa eftir viðskiptafræðingi með sérmenntun í mannauðsstjórnun,“ segir Bjarni, og bætir við að of mikið var gert úr því að sú sem fékk starfið hafi stjórnunar- og rekstrarreynslu.

Bjarni segist trúa því ráðherra hafi staðið faglega að málum. „Rökstuðningurinn vekur hinsvegar spurningar um hverskonar ráðgjöf hún hefur fengið.“

Bjarni var einn af 25 umsækjendum um stöðuna og sá eini sem fór fram á rökstuðning ráðherra í kjölfarið að Ellisif var ráðin.

Hann segir að í rökstuðningi ráðherra komi fram að einhverjir úr hópi fyrrverandi yfirmanna hans teldu hann síður fallinn til stjórnunar- og leiðtogastarfa; orðrétt standi í rökstuðningnum.

„Í umsögnum um Bjarna úr hópi fyrrverandi yfirmanna hans var tilgreint m.a. að Bjarni væri síður fallinn til stjórnunar- og leiðtogastarfa en almennra sérfræðistarfa.“

Bjarni staðhæfir að haft hafi verið samband við tvo af fyrrverandi yfirmönnum hans og í þeim samtölum hafi stjórnunarhæfileikar hans ekki borið á góma. Það stangist því á við rökstuðning ráðherra fyrir því af hverju hann var ekki ráðinn.

Bjarni er erlendis í fríi og mun þegar hann kemur til baka ráðfæra sig við lögfræðing sinn um næstu skref.


Tengdar fréttir

Bjarni einn um að fara fram á rökstuðning ráðherra

Bjarni Vestmann, sendifulltrúi hjá utanríkisráðuneytinu, óskaði sl. þriðjudag eftir rökstuðningi utanríkisráðherra fyrir ráðningu Ellisifjar Tinnu Víðisdóttur í starf forstjóra Varnarmálastofunnar, en Bjarni var einn umsækjanda.

Sótti um stöðu forstjóra Varnarmálastofununnar

Stefán Pálsson sagnfræðingur og herstöðvarandstæðingur er einn þeirra sem sótti um stöðu forstjóra Varnarmálastofnunnar. Nú hefur verið birtur listi yfir umsækjendur en alls sóttu 25 manns um stöðuna. Varnarmálastofnun tekur til starfa 1.júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×