Innlent

Þjóðin vill íbúðalánasjóð áfram

Íbúðalánasjóður.
Íbúðalánasjóður.

Þjóðin vill ekki leggja niður Íbúðalánasjóð og láta banka og lífeyrissjóði sjá um að lána fólki til húsnæðiskaupa. Þetta kemur fram í nýrri könnun fréttastofu Stöðvar 2 sem leiðir í ljós að aðeins tæp tvö prósent landsmanna vill að sjóðurinn verði lagður niður.

Könnunin fór fram dagana 12.-16. júní. Úrtakið var tæplega 1140 manns. Rúmlega helmingur svaraði. Fólk var beðið um að taka afstöðu til fjögurra fullyrðinga, og svara því hver fullyrðinganna ætti best við skoðun þeirra á Íbúðalánasjóði.

Í ljós kom að rösk 36% vildu að Íbúðalánasjóður starfaði áfram í núverandi mynd með óbreyttum hámarkslánum til kaupenda. Öllu fleiri, eða um 57% vildu að Íbúðalánasjóður starfaði áfram í núverandi mynd en hækkaði hámarkslán til kaupenda.

Tvær fullyrðingar sneru að því að breyta Íbúðalánasjóði. Önnur var að Íbúðalánasjóður hætti að lána til einstaklinga en lánaði til viðskiptabanka og lífeyrissjóða og tæki þannig þátt í fjármögnun húsnæðislána. Eitt komma sex prósent svarenda vildu fara þá leiðina.

Hin hljóðaði svo: Íbúðalánasjóður á að hætta starfsemi þannig að viðskiptabankar og lífeyrissjóðir sjái alfarið um íbúðalán. Eitt komma níu prósent kváðust hlynnt því. Tæp þrjú prósent vildu grípa til annarra aðgerða.

Sum sé, tæp níutíu og fjögur prósent þeirra sem svöruðu vilja óbreyttan Íbúðalánasjóð, og meirihluti þeirra vilja hærri hámarkslán. Þess ber að geta að könnunin er gerð áður en ríkisstjórnin tilkynnti um hækkun hámarkslána.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×