Erlent

Rasmussen orðaður við forsetastól ESB

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Anders Fogh Rasmussen hittir Ólaf Ragnar Grímsson forseta á Bessastöðum árið 2003.
Anders Fogh Rasmussen hittir Ólaf Ragnar Grímsson forseta á Bessastöðum árið 2003. MYND/Gunnar V. Andrésson

Ýmsir evrópskir fjölmiðlar eru teknir að orða danska forsætisráðherrann Anders Fogh Rasmussen stíft við stórar stöður innan Evrópusambandsins eða Atlantshafsbandalagsins. Lífseigust er kenningin um að Rasmussen setjist í sjálfan forsetastól ESB áður en langt um líður.

Brusselska dagblaðið European Voice og breska ríkisútvarpið BBC eru meðal þeirra fjölmiðla sem nefnt hafa Rasmussen sem ákaflega líklegan kandídat í stöðuna og fleiri fylgja nú í kjölfarið. Sjálfur tekur hann ekki nema í meðallagi undir þennan þráláta orðróm og sagðist í viðtali við danska TV-Avisen í síðustu viku ekki vera á leiðinni í neina alþjóðlega stöðu hvað sem liði tilraunum hinna og þessara til að koma sögusögnum um það á kreik.

Svar hans við spurningu um hvort hann myndi hafna slíkri stöðu var þó ekki ótvírætt: „Ég hef sagt það sem segja þarf um þetta mál. Mér finnst ég ekki geta orðað það skýrar að ég er ekki kandídat." Til áréttingar bætti hann því við að ekki væri á dagskrá hjá honum að hverfa úr danska forsætisráðherrastólnum.

Jyllandsposten greindi frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×