Innlent

Tyrkir hafa áhuga á samstarfi í orkumálum

Mehmet Hilmi Güler og Össur Skarphéðinsson á fundinum í morgun.
Mehmet Hilmi Güler og Össur Skarphéðinsson á fundinum í morgun. MYND/Iðnaðarráðuneytið

Mehmet Hilmi Güler, orku- og auðlindaráðherra Tyrklands, lýsti yfir áhuga á samstarfi við Íslendinga í orkumálum á fundi sem hann átti með Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra í iðnaðarráðuneytinu í morgun.

Tyrkneski ráðherrann er hér á landi í vinnuheimsókn í boði Össurar og heimsækir fjölmörg íslensk fyrirtæki sem vinna að orkumálum. Hann mun einnig ræða við forseta Íslands í hádegisverði á Bessastöðum á morgun.

Fram kemur í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu að um þessar mundir séu tvö íslensk orkufyrirtæki, Landsvirkjun Power og Rarik Energy Development, að undirbúa jarðhita- og vatnsaflsverkefni í Tyrklandi í samstarfi við tyrknesk fyrirtæki. Talið er að unnt sé að nýta um 2.000 megavött af jarðhita til rafmagnsframleiðslu í Tyrklandi en aðeins hafa verið nýtt um 30 megavött til þessa.

Auk þess er Tyrkland auðugt af lághitasvæðum sem hagkvæmt er orðið að nýta m.a. til húshitunar vegna hækkandi eldsneytisverðs. Þá er talið að hægt sé að virkja um 30.000 megavött í vatnsafli umfram þau 15-20 þúsund sem beisluð hafa verið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×