Innlent

Nútímaíslenska kennd við 40 háskóla

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. MYND/ANTON BRINK

Íslenskukennsla við erlenda háskóla og þýðingar íslenskra bókmennta á erlend tungumál er meðal yrkisefna málþings Íslenskrar málnefndar, Bókmenntasjóðs og Háskólabókasafns sem haldið verður í Þjóðarbókhlöðunni á morgun.

„Það er verið að kenna nútímaíslensku við eina 40 háskóla erlendis og við verðum að styðja við bakið á kennslunni í einum 18 þeirra, þetta eru á milli 1.000 og 2.000 manns sem eru að stunda þetta nám," sagði Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sem setur þingið.

Úlfar sagði frá því að meðal þeirra háskóla sem byðu upp á íslenskukennslu væru tveir háskólar í Japan. Kennarar þar væru þó ekki Íslendingar: „Aðalkennarinn í Japan er nú Japani sem talar íslensku. Við Waseda-háskóla hafa verið 50 - 100 manns í íslenskunámi og við Tokai-háskóla eru kannski 10. Svo er verið að kenna í kvöldskóla þar líka og þar eru jafnvel fleiri. Stærsti hópurinn sem er að læra íslensku erlendis er í Gautaborg en einnig eru margir að læra hana í Berlín og London," sagði Úlfar.

Íslenskan skylda í sænskunámi

„Í Helsinki er náminu þannig komið fyrir að þeir sem eru að læra sænsku verða að læra íslensku," sagði hann enn fremur og bætti því við að staða íslenskukennslunnar væri alla jafna best þar sem íslenskunámið væri skylda frekar en einungis valfag. „Svo eru auðvitað alltaf fleiri og fleiri útlendingar sem koma hingað í nám. Margt þessa fólks kemur hingað sem skiptinemar á Evrópusamskiptasamningum. Svo höfum við verið að vinna að verkefni sem heitir „Icelandic online" og er sjálfsnámsefni á Netinu og það eru um þrjú til fjögur hundruð manns sem sækja það á hverjum degi.

„Philip Roughton ætlar einnig að ræða um þýðingar en hann hefur aðallega verið að þýða Laxness yfir á ensku. T.d. fékk hann verðlaun fyrir þýðingu sína á Íslandsklukkunni og er nú að vinna að þýðingu á ævisögu Laxness eftir Halldór Guðmundsson. Philip er að vinna að því að koma Laxness betur yfir á ensku, verk hans komust ekki mikið yfir á enska tungu á sínum tíma," sagði Úlfar að skilnaði.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×