Innlent

Vegur á Hólmsheiði vegna flugvallar?

Umdeildur vegur sem verið er að leggja upp á Hólmsheiði ofan Reykjavíkur er teiknaður sem tengivegur við flugvöll á heiðinni. Ákvörðun um vegarlagninguna var tekin í tíð fyrrverandi meirihluta í borgarstjórn.

Áætlað er að vegarlagningin upp á Hólmsheiði þessa dagana þýði að ryðja þurfi burt 4.200 trjáplöntum, samkvæmt gögnum frá Skipulagsstofnun, en trén eru sögð að meðaltali sjötíu sentimetra há og tíu til fimmtán ára gömul. Frá framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar fékk Stöð 2 þá skýringu að vegurinn sé á aðalskipulagi en megintilgangur vegagerðarinnar nú sé að stytta vörubílum leið að losunarstað fyrir jarðveg. Í tilkynningu til Skipulagsstofnunar tiltekur Reykjavíkurborg einnig þá skýringu að vegarlagningin sé til að bæta aðgengi almennings að útivistarsvæðum. Júlíus Benediktsson, íbúi í Grafarholtshverfi, efast um þessar skýringar. Hann telur að borgaryfirvöld séu ekki að segja alla söguna. Eitthvað meira sé undirliggjandi. Ef menn skoði þessar framkvæmdir þá gefi þessi vegur til kynna mun stærri aðgerðir.

Hólmsheiðin er reyndar það svæði sem áhugamenn um nýjan flugvöll í stað Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri hafa helst horft til en nú standa yfir veðurfarsrannsóknir sem eiga að skera úr um hvort svæðið sé hæft undir flugvöll. Þegar teikningar sem þegar liggja fyrir um flugvöll á Hólmsheiði eru skoðaðar sést að þar einnig búið að teikna inn vegtengingar flugvallarins við gatnakerfi Reykjavíkur og svo vill til að nýji vegurinn, sem nú er verið að leggja, er einmitt hugsaður sem önnur megintengileið flugvallarins við byggðina. Ákvörðun um vegarlagninguna upp á Hólmsheiði var tekin með samþykkt fjárhagsáætlunar í tíð síðasta meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×