Erlent

Sjónvarpsstjarna finnst látin

Mark Speight er þekktastur fyrir að stjórna föndurþættinum SMart fyrir börn.
Mark Speight er þekktastur fyrir að stjórna föndurþættinum SMart fyrir börn. MYND/Sky News

Breski sjónvarpskynnirinn Mark Speight sem saknað hefur verið frá því á mánudag fannst látinn í London í dag. Samkvæmt upplýsingum lögreglu fannst lík hans á afskekktum stað á Paddington lestarstöðinni í London. Lögreglan sagði Sky fréttastofunni að hann hefði ekki orðið fyrir lest.

Sjónvarpskynnirinn var 42 ára og hafði átt um sárt að binda eftir að Natasha Collins kærasta hans lést af völdum lyfja.

Ekki er ljóst hvernig dauða hans bar að en krufning mun verða framkvæmd síðar.

Martin Brunt fréttamaður Sky sagði að líkið hefði fundist á stað á lestarstöðinni sem er ekki opinn almenningi. Hann bætti við; „Það lítur út fyrir að hann hafi fundið rólegan stað til að deyja á."

Sjónvarpsstjarnan hvarf eftir að fara um borð í lest í norðurhluta Lundúna á mánudag. Fréttir af dauða hans koma degi eftir að faðir hans Oliver kom fram og óskaði eftir því á tilfinningaþrunginn hátt að hann hefði samband.

Scotland Yard hafði verið að rannsaka óstaðfestar fréttir af því að sést hefði til hans í Bournemouth, St. Albans og London.

Collins fannst látin í baðkari í íbúð hennar og Speight í London 3. janúar síðastliðinn. Hún lést af völdum brunasára af sjóðandi vatni og ofneyslu lyfja.

Sjónvarpsstjarnan sagði lögreglunni að parið hefði verið í samkvæmi og hefði tekið kókaín og svefnpillur auk þess að drekka vín og vodka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×