Innlent

Sparifjáreigendur uggandi

Átján þúsund manns eiga peninga í þeim þremur sjóðum Glitnis sem hafa verið lokaðir síðan ríkið tók yfir bankann. Menn sem eiga sparnað í sjóðunum eru uggandi. Gylfi Magnússon dósent í hagfræði segir langlíklegast að sparnaður fólks í þessum sjóðum hafi rýrnað þegar sjóðirnir opna aftur á morgun.

Fjölskyldufaðir í Reykjavík tók nýverið átta milljónir króna að láni til að fjármagna lagfæringar á húsi sínu. Ekki þurfti að nota allir milljónirnar á einu bretti svo maðurinn - af hyggjuviti sínu, að hann hélt - setti þrjár milljónir inn á peningamarkaðssjóð hjá Glitni. Þar hugðist hann geyma féð til ávöxtunar þar til borga þyrfti reikninga vegna endurbótanna. Hann valdi sérstaklega sjóð níu þar sem hann átti að heita öruggur og nær áhættulaus. Sjóður níu er einn af þeim þremur sem hefur verið lokaður síðan fyrir helgi.

Hversu mikið hann á í sjóðnum á morgun er alls óvíst - ekki síst í ljósi þess að einn af stærstu skuldurum sjóðsins er FL Group - nú Stoðir sem fengu í gær greiðslustöðvun vegna fjárhagsvandræða.

Þegar skrúfað er fyrir viðskipti í svona sjóðum er langlíklegast að verið sé að reikna út nýtt - og lægra gengi, segir dósent í hagfræði.

Fólk sem á pening á venjulegum bankareikningum nýtur ríkisverndar upp að þremur milljónum króna en þeir sem ákveða að leggja fé í svona verðbréfasjóði eru ótryggðir með öllu - og ef fyrirtæki á bak við slíka sjóði standa ekki í skilum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×