Innlent

Árangurslaus fundur hjá ríki og hjúkrunarfræðingum

Elsa B. Friðfinnsdóttir.
Elsa B. Friðfinnsdóttir. MYND/Vilhelm

Kjarafundur samninganefndar ríkisins með Félagi íslenksra hjúkrunarfræðinga í morgun skilaði engum árangri og hefur næsti fundur ekki verið boðaður fyrr en eftir tvær vikur. Formaður Félags hjúkrunarfræðinga segir áfram unnið að undirbúningi aðgerða til þess að knýja á um samning.

Samningaviðræður ríkisins og hjúkrunarfræðinga hafa staðið með formlegum hætti frá 18. mars. Eftir fimm árángurslausa fundi var deilunni vísað til ríkissáttasemjara þar sem hún hefur verið síðan. Fundur var í síðustu viku og aftur nú í morgun en að sögn Elsu B. Friðfinnsdóttur, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, var hann árangurslaus með öllu. Ákveðið hafi verið að hittast næst eftir tvær vikur en það er hámarkstími sem líða má á milli funda hjá ríkissáttasemjara.

Deilt er um hversu mikið laun hjúkrunarfræðinga skuli hækka og segir Elsa að ríkið hafi aðeins boðið sams konar samning og gerður var við BSRB á dögunum. Sá gildir til loka mars á næsta ári og kveður meðal annars á um 20 þúsund króna hækkun frá 1. maí. „Við teljum að með því séum við að skrifa upp á kjararýrnun og ég veit að slíkur samningur yrði aldrei samþykktur þannig að það yrði tilgangslaust að skrifa upp á hann," segir Elsa.

Kosið um yfirvinnubann

Hún segir því áfram unnið að því að undirbúa aðgerðir til þess að knýja ríkið til samninga. Þar vísar hún til yfirvinnubanns hjúkrunarfræðinga sem hæfist 10. júlí. Rafræn atkvæðagreiðsla hófst í dag um það hvort boða eigi til yfirvinnubannsins og stendur atkvæðagreiðsla til 22. júní. Niðurstaðan ætti því að liggja fyrir fyrir næsta samningafund. „Það er ljóst að ef af yfirvinnubanninu verður þá skapast neyðarástand frá fyrsta degi," segir Elsa.

Hún segist enn fremur vonast til að þessar aðgerðir þrýsti á um samninga. „Maður vonar að ríkið sjái að sér, ekki síst í ljósi yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar um að bæta stöðu kvennastétta," segir Elsa. Hún bendir enn fremur á að stöðugur skortur hafi verið á hjúkrunarfræðingum og þeir hafi verið að hverfa til annarra starfa. Það sé skylda stjórnvalda sem vilji halda uppi öflugu heilbrigðiskerfi að tryggja viðunandi kjör fyrir hjúkrunarfræðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×