Erlent

Níu létust í tilræði við félagsmálaráðherra Íraks

Níu manns létu lífið þegar reynt var að myrða félagsmálaráðherra Íraks í dag. Ráðherrann sjálfur slapp ómeiddur.

Ráðherrann var í bílalest á leið til vinnu þegar árásin var gerð. Bíl fullum af sprengiefni var ekið inn í bílalestina og hann sprengdur þar. Nálægir bílar tættust í sundur sem og nálægir vegfarendur.

Að minnsta kosti níu manns létu lífið þar á meðal fjórir lífverðir ráðherrans. Fjórtán manns slösuðust. Í öryggisskyni ferðast ráðamenn í Írak alltaf í bílalestum. Bílarnir eru með skyggðar rúður þannig að ekki sést inn í þá. Tilræðismenn vita því ekki í hvaða bíl ráðamaðurinn er.

Fyrir ráðamenn og fylgismenn þeirra er þetta dálítið eins og rússnesk rúlletta. Þótt árásum hafi stórlega fækkað í Írak á undanförnum misserum sýnir þessi atburður að enn er langt í land með að fólk geti þar frjálst um höfuð strokið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×