Innlent

Kaupþing biður ekki um aðstoð

Ljóst er að útlánatap í íslenska bankakerfinu og hjá íslenskum fjárfestum verður töluvert vegna kaupa ríkisins á stórum hlut í Glitni, að mati forstjóra Kaupþings. Of snemmt sé þó að segja til um hversu mikið útlánatapið verður.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, vonar að tíðindin um kaupin á Glitni muni leiða til meiri fjármálastöðugleika hér á landi. Hann segir erfitt að segja til um hver áhrifin verði.

Aðspurður um áhrifin á Kaupþing og aðra fjárfesta segir Hreiðar ljóst að margir tapi töluverðum fjárhæðum vegna aðgerðanna. Hann vill þó ekki leggja mat á tapið strax.

Hreiðar segir stöðu Kaupþings sterka og að hann sé ekki á leiðinni í Seðlabankann að óska eftir aðstoð. Til að mynda hafi innlánseigendum hjá bankanum á alþjóðlegum mörkuðum fjölgað mikið undanfarið.

Hreiðar segir ljóst að Kaupþing muni beina vexti sínum á næstunni til dótturfélaga sinna erlendis og með þeim hætti reyna að létta aðeins á fjármálakerfinu á Íslandi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×