Innlent

Dollarayfirlýsing forsætisráðherra kostuleg

Geir Haarde forsætisráðherra útilokar ekki að taka upp bandaríkjadal á Íslandi. Hann sagði þetta í viðtali við erlenda fréttaveitu í gær. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, segir þetta kostulega yfirlýsingu frá forsætisráðherra.

Það er í viðtali við Dow Jones fréttaveituna sem forsætisráðherra segir að hann vonist til að hægt verði að forðast að tengja íslensku krónuna við annan gjaldmiðil eða taka upp aðra mynt. Ef til þess kæmi myndi hann ekki útiloka möguleikann á að taka upp bandaríkjadal. Þetta kom fram á visi.is í gær.

Þar segir einnig frá því að Geir hafi á málþingi fjárfesta í Lundúnum í vikunni sagt að mikil viðskipti Íslendinga færu nú þegar fram í bandaríkjadölum. Upptaka dalsins væri því rökréttari lausn en innganga í myntbandalag Evrópu sem svo myndi leiða til evruvæðingar. Evran væri þannig ekki sjálfgefin mynt að mati Geirs.

Formaður Rafiðnaðarsambandsins, Guðmundur Gunnarsson, segir í nýjustu færslu á bloggi sínu að yfirlýsing forsætisráðherra sé kostuleg. Hann spyr hvort hér sé maður sem þori ekki að leggja í ákvarðanir fyrri formanns.

Eins og staðan sé nú þá virðist það eina, segir Guðmundur, sem vaki fyrir mönnum að halda í fyrri stjórnarhætti og valdastöðu í íslensku samfélagi. Hagsmunir almennings og fyrirtækja skipti þá minna máli. Á sama tíma gefi sífellt fleiri fyrirtæki og samtök út yfirlýsingar um að sú peningastefna hér sé fylgt gangi ekki. Þá telur Guðmundur að undirbúningi aðildar að ESB verði ekki lengur skotið á frest.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×