Innlent

Pósthússtræti lokað vegna veðurs

MYND/Heimasíða Reykjavíkurborgar

Pósthússtræti verður lokað í dag fyrir bílaumferð við Kirkjustræti. „Lokun á góðviðrisdögum er þáttur í Grænum skrefum í Reykjavík um lifandi og skemmtilega borg," segir Gísli Marteinn Baldursson.

Í tilkynningu frá borginni kemur fram að lokunin sé í samræmi við Græn skref í Reykjavík en þar stendur: „Pósthússtræti meðfram Austurvelli verður gert að göngugötu í miðbæ Reykjavíkur á góðviðrisdögum."

„Þegar Vallarstræti og Torvaldsenstræti var lokað fyrir bílaumferð á sínum tíma spruttu fram borð og stólar og mannlíf sem ekki hafði komist fyrir í bílaumferðinni," segir Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfis- og samgönguráðs. „Það sama gerist í Pósthússtrætinu þegar við lokum því og viðbrögðin frá borgarbúum hafa verið á eina lund jákvæð." Hann vísar til þess að Umhverfis- og samgöngusvið lokaði Pósthússtræti á liðnu sumri í tilraunaskyni.

Í tilkynningunni er einnig minnt á á orð danska fræðimannsins og arkitektsins Jan Gehls sem hét fyrirlestur í Reykjavík í vikunni á vegum Félags íslenskra landslagsarkitekta: „Leiðin til að skapa rými fyrir fólk í borgum er að ganga á rými bifreiða og leiðin til að bjarga borg undan bílnum felst í því greiða götu gangandi og hjólandi með áberandi og áþreifanlegum hætti," sagði Jan Gehl.

Þá kemur fram að Veðurstofa Íslands spái björtu fyrir Höfuðborgarsvæðið og 13 stiga hita. Pósthússtræti verður, vegna öryggisreglna, með aðgengi fyrir slökkvi- og sjúkrabifreiðar að norðanverðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×