Innlent

OR-maður: „Get sjálfum mér um kennt“

Hús Orkuveitu Reykjavíkur
Hús Orkuveitu Reykjavíkur

Kristinn H. Þorsteinsson yfirmaður hjá Orkuveitunni sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi vegna fréttar Stöðvar 2 og Rúv. Þar var rætt um starfslok Kristinns eftir að hann hafði sjálfur samþykkt reikninga, upp á 10 milljónir króna, við fyrirtæki sem hann var sjálfur í forsvari fyrir.

„Í fréttum þessara miðla er réttilega frá sagt að ég hafi samþykkt reikninga sem einkahlutafélag í eigu minni fékk greidda af Orkuveitu Reykjavíkur. Reikningarnir voru til komnir vegna vinnu tveggja sona minna sem unnið hafa íhlaupavinnu hjá Orkuveitunni undanfarin ár og vegna vinnu eiginkonu minnar sem unnið hefur sem verktaki af og til undanfarin ár í þeirri deild sem ég stjórnaði. Einnig fékk ég bróður minn til þess að vinna einstök verkefni fyrir deildina og skrifaði upp á reikninga vegna þeirrar vinnu,“ segir Kristinn í yfirlýsingunni.

Þá segir hann að í öllum tilvikum hafi verið um að ræða eðlilega greiðslu fyrir þau störf sem unnin voru. Vinna konu hans, sona og bróðurs hafi verið unnin fyrir opnum tjöldum, á fjölmennum vinnustað og á engan hátt var farið í felur með tengsl þeirra innbyrðis.

„Öllum sem vita máttu voru tengslin ljós og aldrei einu eða neinu haldið leyndu. Það breytir þó ekki því að með því að samþykkja reikninga vegna vinnu þeirra braut ég verklagsreglur Orkuveitu Reykjavíkur.

Mér er ljóst að sú háttsemi sem hér er lýst lítur illa út í fjölmiðlum og eflaust halda margir að ég hafi verið að draga mér fé með svikum og prettum. Staðreyndin er eigi að síður að sú vinna sem rukkað var fyrir af eiginkonu minni, sonum og bróður var unnin í samræmi við það sem rétt og eðlilegt getur talist og einnig var fjárhæð reikninga í samræmi við það sem sanngjarnt er. Yfirstandandi endurskoðun mun leiða það í ljós. Ég veit að sú endurskoðun mun sýna fram á að ég hef ekki framið neitt það sem refsivert getur talist.

Ég get engun nema sjálfum mér um kennt hvernig farið hefur, en ítreka að ég hef á engan hátt skarað eld að eigin köku. Ég hef hins vegar nýtt starfskrafta konu minnar, sona og bróðurs í þágu Orkuveitunnar. Mistök mín voru í því fólgin að fara ekki að reglum sem segja fyrir um að maður skuli ekki sjálfur skrifa upp á reikninga síns fólks. Þetta er óafsakanleg yfirsjón sem ég harma mjög, enda hef ég unnið af heilindum fyrir fyrirtækið frá stofnun þess og fyrir Rafmagnsveitu Reykjavíkur næsta áratuginn þar á undan.

Það er óskaplegt að verða þetta á eftir nær 20 ár í starfi hjá þessu góða fyrirtæki. Ég get þó engum nema sjálfum mér um kennt hvernig komið er. Ég óska fyrrverandi samstarfsfólki mínu alls hins besta og gleðilegra jóla á þessum erfiðu tímum," segir í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×