Innlent

Nokkrum tugum sagt upp hjá Þ.G. verktökum

Þ.G. verktakar hafa meðal annars byggt upp húsnæði á Norðurbakka í Hafnarfirði.
Þ.G. verktakar hafa meðal annars byggt upp húsnæði á Norðurbakka í Hafnarfirði.

Þ.G. verktakar hyggjast segja upp nokkrum tugum starfsmanna nú um mánaðamótin og eru uppsagnarbréf að berast starfsmönnum. Davíð Már Sigurðsson starfsmannastjóri Þ.G. verktaka, staðfesti þetta í samtali við Vísi en sagði verið að vinna í málinu. Hann sagði því ekki liggja fyrir hversu mörgum nákvæmlega yrði sagt upp.

Aðspurður sagði hann erfitt að grípa til aðgerða sem þessara en fyrirtækið hefur ekki frekar en önnur félög farið varhluta af samdrætti á byggingarmarkaði. Tilkynning verður send Vinnumálastofnun um málið eftir helgi enda er um að ræða hópuppsagnir.

Þ.G. verktakar er meðal stærstu verktakafyrirtækja landsins og hefur meðal annars komið að byggingu Hellisheiðarvirkjkunar, höfuðstöðva Orkuveitunnar og verslunarkjarnans í Holtagörðum. Félagið vinnur nú meðal annars að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði í Garðabæ og Hafnarfirði eftir því sem fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins.

Töluvert hefur verið um uppsagnir í byggingageiranum það sem af er ári og ber þar hæst að 300 manns var sagt upp hjá Ístaki í síðasta mánuði. Þá hafa Byggingarfélagið Kambur, Byggt ehf., ANS og Stafnás tilkynnt um uppsagnir á árinu, allt frá 23 mönnum til 95. Því til viðbótar hefur ein byggingarvöruverslanakeðja, MEST, verið tekin til gjaldþrotaskipta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×