Erlent

Átta unglingar ákærðir fyrir misþyrmingar á skólasystur

Átta bandarísk ungmenni sem gengu í skrokk á skólasystur sinni og ætluðu að birta barsmíðarnar á netinu hafa verið formlega ákærð fyrir mannrán og líkamsárás. Þau eiga yfir höfði sér þungan dóm verði þau sakfelld.

Sú sem varð fyrir árásinni er 16 ára. Þau sem réðust gegn henni eru á aldrinum 14 til 18 ára - sex stúlkur og tveir drengir. Stelpunni var boðið í hús þar sem setið var fyrir henni. Unglingspiltarnir voru á verði fyrir utan og vörnuðu stelpunni útgöngu á meðan unglingsstúlkurnar létu höggin dynja.

Ástæðan fyrir árásinni er sögð sú að stelpan hafi móðgað þau sem réðust gegn henni með skrifum sínum á samskiptasíðunni MySpace á netinu. Þá var ákveðið að láta hnefana tala og birta myndbandið á vefveitunni YouTube og samskiptasíðum á borð við MySpace og Facebook. Á upptökunni má heyra hvar fórnarlambið er hvatt til að svara fyrir sig og berja frá sér sem hún gerir ekki. Henni er hent í vegg og hún barin. Stúlkan fékk heilahristing og hlaut ýmiskonar áverka.

Upptakan var ekki birt á vefnum fyrr en lögregla birti hana í vikunni.

Ungmennin átta gætu átt þungan fangelsisdóm yfir höfði sér en þau eru ákærð fyrir mannrán, líkamsárás og tilraun til að hafa áhrif á vitni. Að kröfu saksóknara verða ungmennin meðhöndluð sem fullorðin fyrir dómi og dæmt samkvæmt því.

Ungmennin ganga laus gegn rúmlega tveggja milljóna króna tryggingu. Þeim er bannað að mæta í skóla, eiga samskipti hvert við annað eða nota vefinn meðan mál þeirra er til meðferðar. Þeim er einnig bannað að veita viðtöl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×