Erlent

Tuttugu heimilislausir eftir stórbruna í Björgvin í nótt

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Tore Sevheim/NRK

Tuttugu manns eru heimilislausir eftir stórbruna í Björgvin í nótt og tæplega 50 voru fluttir á brott í skyndi þegar slökkviliði barst tilkynning um að nokkur hús í hverfinu Skivebakken stæðu í ljósum logum.

Mesta mildi þótti að enginn skyldi slasast en lögregla notaði SMS-skilaboð til að gera íbúum húsa í nágrenninu viðvart og skipa þeim á brott. Tvö hús eru gjörónýt, það þriðja nokkurn veginn og tvö urðu fyrir vatns- og reykskemmdum. Slökkvilið var á fimmta tíma að ráða niðurlögum eldsins en nánast öll hús í hverfinu eru timburhús.

Skemmst er að minnast stórbruna í Björgvin þegar bryggjuhúsin þar brunnu nýverið. Lögregla sér þó ekkert samhengi með þessum brunum og ekki leikur grunur á að brennuvargur gangi laus í borginni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×