Erlent

ESB býr sig undir aðildarumsókn Íslands

Olli Rehn fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Olli Rehn fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu gætu hafist strax eftir áramótin ákveði Íslendingar að sækja um. Þetta sagði stækkunarstjóri sambandsins við fréttamenn fyrir leiðtogafund í Brussel í morgun.

Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, var spurður um mögulega aðild Íslands á undirbúningsfundi fyrir fund leiðtoga ESB ríkja sem fer fram í Brussel í dag og á morgun.

Rehn sagði framkvæmdastjórnina búa sig andlega undir aðildarumsókn Íslands eins og hann orðaði það.

Hann var þá spurður hvenær aðildarumsóknarferlið gæti hafist og sagði hann það geta hafist snemma á næsta ári.

Engin ákvörðun hefur þó verið tekin í ríkisstjórn um að Ísland sæki um aðild þó vitað sé um vilja Samfylkingarinnar til þess.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur flýtt landsfundi sínum fram í janúar en þá er stefnt að því að taka afstöðu til Evrópumála.

Nefndir eru að störfum að skoða stöðu Íslands fyrir fundinn. Rehn virðist þó vera að senda þau skilaboð að viðræður geti hafist strax í næsta eða þarnæsta mánuði verði sú ákvörðun tekin að sækja um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×