Innlent

Stika tugi kílómetra gönguleiða í Mosfellsbæ

Tæpir sjötíu kílómetrar gönguleiða verða á næstu misserum stikaðir í nágrenni Mosfellsbæjar, auk þess sem upplýsingaskilti og nestisskýli verða sett upp. Mosfellsbær og skátafélagið Mosverjar hafa undirritað samning um að hinir síðarnefndu annist stikunina og skipulagningu.

Í tilkynningu frá Mosfellsbæ segir að byrjað verði á fyrsta áfanga verksins árið 2009. Leiðirnar munu liggja mjög víða um ósnortna náttúru innan bæjarlandsins. Má nefna gönguleiðir á Helgafell, Mosfell, Úlfarsfell og Grímmannsfell. Leiðir upp með Varmánni og yfir í Helgadal og Seljadal. Einnig frá Gljúfrasteini og að Helgufoss. Þá er ætlunin að fara umhverfis Hafravatn og á Reykjaborg.

Við upphaf hverrar gönguleiðar verður bílastæði og upplýsingaskilti þar sem hægt verður að skoða göngukort af svæðinu. Auk þess verða á leiðunum skilti með ýmsum fróðleik svo sem um náttúrufar og sögu svæðisins. Þá verða vegprestar á vegamótum, göngubrýr yfir ár, gestabækur á fjallatoppum og lítil skýli, þar sem hægt verður að fá sér nesti hluti af framkvæmdinni. Við Hafravatn verður gerð flotbryggja til að auka öryggi og auðvelda notkun báta á vatninu.

Til að kynna verkefnið og auðvelda íbúum Mosfellsbæjar að nýta gönguleiðirnar verður prentað sérstakt göngukort. Það mun sýna allar gönguleiðirnar á svæðinu, lengd þeirra og aðrar nauðsynlegar upplýsingar. Bílastæði verða merkt á kortið auk áhugaverðra staða sem gaman er að koma á og fræðast um.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×