Erlent

Grunur um kynferðislega misnotkun í sértrúarsöfnuði

Dómshús í Harris sýslu í Texas
Dómshús í Harris sýslu í Texas MYND/Úr safni

Dómari í Texas í Bandaríkjunum hefur úrskurðað að 416 börn verði færð undir forræði yfirvalda þar til DNA sýni skeri úr um hverjir foreldrar þeirra séu. Börnin tilheyra sértrúarsöfnuði sem hvetur til fjölkvænis og leikur grunur á að ungar stúlkur séu kynferðislega misnotaðar.

Málið hefur vakið mikla athygli og óhug í Bandaríkjunum og víðar, enda þykir það minna um margt á harmleikinn í Waco í Texas árið 1993 þar sem 80 meðlimir sértrúarsafnaðar brunnu inni á búgarði eftir rúmlega 50 daga fyrirsát alríkislögreglunnar.

Málið er umfangsmesta barnaverndarmál í sögu Bandaríkjanna. Það hófst þegar 16 ára stúlka leitaði á náðir kvennaathvarfs eftir að fimmtugur eiginmaður hennar hafði gengið í skrokk á henni og nauðgað. Hún var þá ófrísk af öðru barni þeirra, en lágmarksaldur til að hafa samræði í Texas er 17 ár. Í kjölfarið gerði lögregla áhlaup á búgarð safnaðarmeðlima og vöru börnin, sem eru á aldrinum sex mánaða til 17 ára, færð undir forræði barnaverndar yfirvalda.

Réttarhöldin yfir forræði barnanna leystust á tímabili upp í vitleysu þar sem yfir 300 lögfræðingar á vegum safnaðarmeðlima gerðu dómara lífið leitt með endalausum inngripum. Á endanum var þó ákveðið að fela yfirvöldum forræðið. Ómögulegt hefur reynst að rekja hverjir foreldrar barnanna eru þar sem safnaðarmeðlimir hafa neitað að starfa með lögreglu. Segja þeir að um trúarofsóknir sé að ræða.

Söfnuðurinn klofnaði frá Mormónakirkjunni fyrir rúmlega 100 árum síðan. Hann þykir ýta undir fjölkvæni, enda trúa safnaðarmeðlimir að karlmenn verði að eiga að minnsta kosti þrjár eiginkonur til að komast í himnaríki. Á meðan er stúlkunum kennt að leið þeirra til himnaríkis liggi í óbilandi hollustu og undirgefni við eiginmanninn.

Lögreglu grunar að ungar stúlkur séu misnotaðar í stórum stíl og að stúlkur allt niður í 13 ára hafi orðið barnshafandi. Leiðtogi safnaðarins hetir Warren Jeffs. Hann situr nú í fangelsi fyrir að neyða 14 ára stúlku til að giftast frænda sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×