Lífið

Krimmar gefa krimma í jólagjöf

Fangar á Litla-Hrauni fá hundruð bóka á mánudaginn. Flestar þeirra fara þó aftur út en fangarnir geta gefið sínum nánustu bók. um jólin.
Fangar á Litla-Hrauni fá hundruð bóka á mánudaginn. Flestar þeirra fara þó aftur út en fangarnir geta gefið sínum nánustu bók. um jólin.

Fangar á Litla-Hrauni fá góðan glaðning í dag þegar fulltrúar frá Félagi bókaútgefanda mæta með hundruð bóka sem ætlað er að verði pakkað inn til ættingja og vina, komið fyrir á bókasafni fangelsisins auk þess sem kokkarnir fá sinn skerf; úrval matreiðslubóka. Fangarnir á Litla-Hrauni eru nefnilega með sitt eigið eldhús og geta því gripið í uppflettiritin þegar svo á við.

Kristján Bjarki Jónasson, formaður Félags bókaútgefanda, segir þetta þó aðallega vera gert til að gera föngum kleift að gefa sínum nánustu jólagjöf. „Við létum fangana útbúa óskalista og útgefendur tóku síðan mið af honum þegar þeir gáfu bækur til framtaksins,“ segir Kristján en bækurnar eru langflestar nýjar af nálinni þótt vissulega slæðist ein og ein gömul með. Allir bókaútgefendur lögðu sitt af mörkum og því er um mikið flóð bóka að ræða.

Kristján segir flóruna vera ótrúlega fjölbreytta, þarna séu barnabækur og lífsreynslusögur og allt þar á milli. Aðspurður hvort að einhverjar glæpasögur fái að fljóta með segir Kristján það óhjákvæmilegt, þær skipi enda veglegan sess í jólabókaflóði landsmanna um hver jól.

Skrifstofufyrirtækið Office One leggur síðan til gjafapappír, slaufur og kort svo að fangarnir geta sjálfir skreytt gjafirnar sínar. Auk þess leggur fyrirtækið til inneign á tungumálanámskeið en margir af erlendum föngum Litla-Hrauns hafa víst mikinn hug á að læra íslensku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.