Erlent

Dauðvona börn líða fyrir hrun bankanna

Stjórn líknarsamtakanna Naomi House, í Hampshire í Bretlandi, hittist í kvöld til að ákveða hvort skera eigi niður þjónustu við dauðvona börn. Líknarsamtökin áttu 5,7 milljónir punda, sem samsvarar 1,2 milljörðum íslenskra króna, á reikningum hjá Kaupþing Singer & Friedlander, en hafa ekki getað nálgast peninginn eftir að bankinn hrundi í byrjun október. Mögulegt er að stjórn Naomi House taki í kvöld ákvörðun um að hætta við verkefni sem felst i heimahjúkrun fyrir dauðvona börn.

Maria Miller, þingmaður fyrir Basingstoke í Hampshire, hefur óskað eftir því að ríkisstjórnin komi Naomi House til aðstoðar. Hún segir að líknarsamtök hafi upphaflega verið fullvissuð um að þau myndu njóta sérstakrar fyrirgreiðslu en núna virtist sem að líknarheimilið myndi ekki njóta neinnar verndar. Miller segir að hún hafi ekki fengið nein viðbrögð frá fjármálaráðuneytinu við fyrirspurnum sínum.

BBC fréttastofan greindi frá.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×