Innlent

Boruðu dýpstu holu landsins

MYND/Orkuveita Reykjavíkur

Menn á vegum Jarðborana slógu á dögunum aðeins þriggja mánaða gamalt met við borun á Skarðsmýrarfjalli á Hellisheiði. Holan sem boruð var reyndist 3.322 metrar og var þar með 211 metrum dýpri en fyrri methola sem lokið var við í febrúar.

Fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur að gufu úr holunni verði veitt í gufuhverfla sem teknir verða í notkun í Hellisheiðarvirkjun í haust. Bent er á að hin nýja methola sé ekki stefnuboruð líkt og flestar holur á Hengilssvæðinu og nær því alla sína 3.322 metra niður fyrir yfirborðið. Það var áhöfnin á jarðbornum Geysi frá Jarðborunum sem boraði á þetta metdýpi og tók borunin rúmar fimm vikur.

„Nú er verið að afla upplýsinga úr holunni djúpu sem geta gefið betri vísendingar en hingað til hefur verið stuðst við um afkastagetu jarðhitakerfisins á Hengilssvæðinu. Því dýpra sem rannsóknargögn eru sótt, því líklegra er að mat á umfangi auðlindarinnar vaxi. Vísindamenn reikna einungis með varmanum niður á það dýpi sem rannsóknir ná til þegar umfang auðlindarinnar er metið og þar með sjálfbærni nýtingarinnar," segir einnig í tilkynningunni. Enn fremur er bent á að rannsóknarniðurstöður úr holunni geti gefið gagnlegar vísbendingar fyrir djúpborunarverkefnið sem Orkuveita Reykjavíkur á aðild að og nú stendur yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×