Innlent

Dæmdur fyrir ölvun í björgunaraðgerðum

Karlmaður var í Héraðsdómi Suðurlands í dag dæmdur til þess að greiða 160 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs fyrir að hafa ekið bifreið sinni undir áhrifum áfengis.

Maðurinn neitaði sök. Hann bar fyrir sig neyðarrétti þar sem hann hafi eingöngu setið undir stýri bifreiðarinnar í því skyni að bjarga henni frá skemmdum. Bifreiðin hafi setið föst í fjörunni fyrir neðan skemmtistaðinn Hafið bláa í Ölfusi farið hafi verið að flæða að.

Hann kallaði því eftir aðstoð björgunarsveitar sem aðstoðaði hann við að draga bílinn úr fjörunni. Á meðan þessari björgunaraðgerð stóð sat maðurinn ölvaður undir stýri bifreiðarinnar og stýrði henni .

Þegar lögregla kom á vettvang var ennþá verið að bjarga bílnum en þegar því var lokið handtók lögregla manninn og mældi hann með rúmlega 3 prómill af áfengi í blóðinu.

Héraðsdómur féllst ekki á þau rök mannsins að neyðarréttur réttlæti það að hann væri ölvaður undir stýri í björgunaraðgerðunum þar sem með honum í för voru menn sem sögðust ekki hafa verið undir áhrifum. Það var því mat dómsins að maðurinn hefði gerst sekur um ölvunarakstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×