Erlent

Opið hús hjá hryðjuverkamönnum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Verðir, vopnaðir Kalashnikov-rifflum, sem almennt sjást á vappi við þetta hlið, voru víðs fjarri í gær þegar Lashkar-e-Taiba-menn sýndu húsakost sinn.
Verðir, vopnaðir Kalashnikov-rifflum, sem almennt sjást á vappi við þetta hlið, voru víðs fjarri í gær þegar Lashkar-e-Taiba-menn sýndu húsakost sinn. MYND/EPA

Pakistanskur hryðjuverkahópur, sem kennt hefur verið um ódæðisverkin í Mumbai, opnaði í gær dyr sínar fyrir fjölmiðlum til að sanna sakleysi sitt.

Það ber ekki mikið á ómerktum afleggjara tæpa 50 kílómetra norður af Lahore, höfuðborg Punjab-héraðsins í Norðaustur-Pakistan, ekki mikið meira en á íslenskum sveitavegi á Rangárvöllum. Vegurinn liggur þó að höfuðstöðvum hryðjuverkahreyfingarinnar Lashkar-e-Taiba sem er hinn pólitíski vængur Jamaat-ud-Dawa en þeir piltar kalla víst ekki allt ömmu sína.

Í gær sviptu samtökin þó hulunni af þeirri ógnvænlegu leynd sem umlykur þau til þess að reyna að sýna heimsbyggðinni fram á að þau bæru ekki ábyrgð á hermdarverkunum í Mumbai á Indlandi í síðustu viku þar sem tæplega tvö hundruð manns týndu lífi sínu og mörg hundruð að auki særðust á sál og líkama. Var þar sýnt fram á það sem aldrei fyrr að skammt er milli illra verka og stórra.

Með opna húsinu vildu félagar Jamaat-ud-Dawa sýna og sanna að þeir hefðu ekkert að fela. Hér er ekkert nema sjúkrahús, mjólkurbú, mötuneyti og fiskeldisstöð sagði talsmaður samtakanna sem er enginn annar en Hafiz Saeed en nafn hans er eitt af þeim tuttugu efstu á listanum yfir þá sem indversk yfirvöld vilja sjá bak við lás og slá. Kannski segir hann satt, hver veit?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×