Innlent

Frestur vegna breytinga á Ingólfstorgi rennur út á morgun

Frestur til að skila inn athugasemdum við breytingar á Ingólfstorgi rennur út á morgun.

Umtalsverð breyting verður á Ingólfstorgi ef áform manna um að reisa hótelálmu vestur eftir Vallarstræti verður að veruleika. Svo það megi verða þarf að flytja timburhúsin tvö við suðurenda torgsins yfir Vallarstræti og inn á torgið sjálft. Ekki eru allir hrifnir af þessari hugmynd, meðal annars hefur Helgi Þorláksson, sagnfræðingur, lýst þeirri skoðun sinni að 30% skerðing á þessu helsta samkomutorgi Reykvíkinga sé of mikil fórn.

Fram kemur í deiliskipulagskynningunni að gömlu húsin tvö standi nú í skugga fimm hæða gluggalausra brunagafla en verði við flutninginn gerð upp og tengd starfsemi torgsins.

Íbúðir eiga að vera á efstu hótelbyggingarinnar en verslanir og veitingastaðir á jarðhæðinni. Sextán hótel eru nú þegar í 101 Reykjavík og áform eru um að opna fleiri. Á hótelunum eru rösklega tólfhundruð hótelherbergi og tæplega 2500 rúm. Nýting herbergja á hótelum og gistiheimilum á höfuðborgarsvæðinu í fyrra var 57,5%.

Athugasemdum skal skila skriflega eða á netfangið skipulag@rvk.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×