Innlent

Bræðurnir segja Annþór hafa skipulagt smyglið

Ari Gunnarsson annar bræðranna í Hraðsendingarmálinu svokalla, brast í grát þegar hann bar vitni í málinu í dag. Honum og þremur öðrum er gefið að sök stórfellt fíkniefnabrot með því að hafa staðið að innflutningi á 4,6 kílóum á amfetamíni og nærri 600 gömmum af kókaíni frá Þýskalandi. Ari og bróðir hans, Jóhannes, bera báðir að Annþór Kristján Karlsson hafi verið skipuleggjandi smyglsins og sá sem fjármagnaði fíkniefnakaupin. Þeir bræður segjast aðeins hafa verið milligöngumenn á milli Annþórs og Tómasar Kristjánssonar sem starfaði hjá hraðsendingarfyrirtækinu UPS en efnin voru send með hraðsendingu á vegum þess.

Bræðurnir segjast hafa verið logandi hræddir við Annþór, sem er þekktur í undirheimum Reykjavíkur, og því hafi þeir ekki þorað að draga sig út úr málinu af ótta við hefndaraðgerðir.

Ari, sem er stór maður og mikill að vexti, brast í grát þegar hann rakti hagi sína, en hann á von á barni með unnustu sinni fljótlega. Báðir bræðurnir eru feður, Jóhannes á tvö börn og Ari eitt og annað á leiðinni eins og áður sagði.

Að þeirra sögn vissi Tómas ekki af Annþóri og Annþór ekki af Tómasi. Mennirnir höfðu samskipti í gegnum póstforritið Yahoo. Þeir sendu þó ekki tölvupósta heldur höfðu þeir allir aðgang að sama reikningnum og gátu því gert uppkast að tölvuskeyti án þess að senda það. Þannig gátu hinir skoðað uppkastið án þess að skeytið hefði verið sent. Þeir segjast hafa óttast um að vera hleraðir og því var þessi háttur hafður á samskiptunum. Auk þess ræddu þeir aldrei um smyglið í síma eða í gegnum sms skilaboð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×