Skoðun

Heimgreiðslur – afturhvarf til forneskju

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir skrifar

Falskir tónar streyma nú úr ráðhúsi Reykjavíkur þar sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkurinn reyna að stilla saman strengi sína á ný. Síðasta feilnótan heyrðist úr leikskólaráði þegar heimgreiðslur voru endanlega samþykktar í vikunni sem leið, en þá snarsnérist framsókn um sjálfan sig í málinu. Fyrir örfáum mánuðum taldi fulltrúi Framsóknarflokksins að fyriráætlanir Sjálfstæðisflokksins um heimgreiðslur – vera skref aftur á bak í jafnréttisbaráttunni. Nú aftur á móti þegar framsókn er komin í faðm Sjálfstæðisflokksins er í lagi að senda konurnar heim.

„Þjónustutryggingin“ sem meirihlutinn kallar nú heimgreiðslurnar átti að fela í sér „tryggingu“ í formi 35 þúsund króna, fyrir þá foreldra sem biðu eftir plássi fyrir barn sitt á leikskóla eða hjá dagforeldri. Nú hins vegar stendur greiðslan til boða fyrir foreldra barna yngri en 24 mánaða eftir að fæðingarorlofi lýkur, þrátt fyrir að barninu standi dagvistun til boða.

Gert er ráð fyrir að 260 milljónir fari í heimgreiðslur næsta eina og hálfa árið. Hverju barni fylgir 35 þúsund krónur sem er fráleit upphæð sem er langt frá því að duga sem framfærsla fyrir barn og fullorðinn. Betur væri að verja þeim fjármunum í að hraða uppbyggingu leikskólanna í borginni, fjölga plássum svo hægt sé að lækka innritunaraldur barna. Auk þess sem verulega þarf að huga að leiðum til að hækka laun starfsmanna, ekki síst til að vinna bug á manneklunni. Þá teljum við að þrýsta þurfi á ríkisstjórnina að flýta lengingu fæðingarorlofsins enda er það mikilvægt að foreldrar geti verið lengur heima með börnum sínum, en með sómasamleg laun. Ef meirihlutanum er alvara með því að greiða foreldrum svo þau geti átt lengri samveru með börnum sínum fyrstu mánuðina þarf sú upphæð að vera í takt við rauntekjur fólks – ekki smánarlaun eins og nú er boðið upp á.

Áhrif heimgreiðslna í Noregi og Finnlandi hafa sýnt að nær eingöngu konur nýta sér þær, ástæðan er að þær hafa að jafnaði lægri laun en karlar, líkt og hérlendis. Þessi staðreynd hefur því styrkt gamaldags hlutverkaskiptingu kynjanna á heimilinu og eru taldar hafa dregið verulega úr jafnrétti kynjanna. Heimgreiðslurnar vinna því beinlínis gegn markmiðum feðraorlofsins í því að jafna þátttökumöguleika beggja kynja í uppeldi barna sinna, ný samþykktum jafnréttislögum og mannréttindastefnu borgarinnar.

Bilið sem myndast hefur á milli loka fæðingarorlofs og þar til dagvistun fæst fyrir barn er ekki viðunandi ástand en stjórnmálamenn verða að sýna ábyrgð og vinna að lausn vandans til frambúðar en ekki freistast til að plástra ástandið – á kostnað kvenna.

Höfundur er fulltrúi Samfylkingarinnar í leikskólaráði.




Skoðun

Sjá meira


×