Innlent

Vextir af verðtryggðum lánum verði aldrei hærri en tvö prósent

MYND/GVA

Þrír þingmenn Vinstri - grænna hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að verðtryggð lán beri aldrei hærri vexti en nemur tveimur prósentum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að við þær sérstöku aðstæður sem nú séu uppi, óðaverðbólgu og háa vexti, væri þetta brýnt réttlætismál fyrir lántakendur. Sá sem taki verðtryggt lán sé með öllu óvarinn á tímum verðbólgu en verðtryggingin tryggi hagsmuni lánveitenda gegn öllum sveiflum í verðlagi.

Benda þingmennirnir Ögmundur Jónasson, Katrín Jakobsdóttir og Jón Bjarnason á að með verðtryggingunni sé hægt að halda vöxtum lægri en ella vegna þessarar litlu áhættu lánveitandans.

„Nauðsynlegt er að taka verðtryggingu lána í heild sinni til endurskoðunar, en þar til slíkt hefur verið gert er mikilvægt að ná fram þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til sem lágmarksvernd fyrir lántakendur verðtryggðra lána. Með þessu móti er lánskostnaður raunverulega lækkaður í stað þess að einungis sé lengt í snörunni eins og gert er með frestun afborgana," segir í frumvarpinu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×