Erlent

Stjórnarandstæðingar handteknir í Simbabve

Öryggissveitir í Simbabve hafa í morgun handtekið um fimmtíu stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar í landinu fyrir að hvetja til verkfalla. Með aðgerðum sínum vildu þeir knýja yfirvöld til að birta úrslit forsetakosninga í landinu sem fóru fram fyrir átján dögum.

Verkföll hafa reyndar lítil áhrif, fjórir af hverjum fimm Simbabvebúum eru atvinnulausir. Efnahagur landsins er í rúst, verðbólga um hundrað þúsund prósent. Löggæsluyfirvöld segja stærsta stjórnarandstöðuflokkinn, MDC, vilja koma af stað átökum með því að hvetja til verkfalla.

Talsmaður MDC segir að rúmlega fimmtíu stuðningsmenn flokksins hafi verið handteknir í aðgerðum í úthverfum höfuðborgarinnar, Harare, og í Bulawayo. Öryggislögregla segist hafa handtekið þrjátíu stjórnarandstæðinga sem verði ákværðir fyrir ólæti, að hindra lögreglu í starfi og að þvinga vinnandi fólk til að leggja niður vinnu sína.

Liðsmenn MDC ráða nú ráðum sínum og ræða hvort enn eigi að krefjast þess að fólk leggi niður vinnu og haldi sig heima þar til úrslit forsetakosninganna verði birt. Svo virðist sem það hafi ekki gengið eftir í dag þar sem þau fyrirtæki sem enn séu starfandi hafi verið opin í morgun.

Átján dagar eru síðan forsetakosningarnar fóru fram og kjörstjórn enn ekki birt úrslitin. Tekist er á um hvort Morgan Tsvangirai, frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, hafi sigrað eða hvort kjósa þurf aftur milli hans og Roberts Mugabe, forseta.

Ástandið í Simbabve verður án efa til umræðu á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag. Þann fund munu nokkrir leiðtogar Afríkuríkja sitja. Thabo Mbeki, forseti Suður-Afríku, stýrir fundinum. Hann hefur tekið að sér hlutverk sáttasemjara í málinu og vildi helst að það yrði ekki rætt á vettvangi öryggisráðsins meðan ástandið í landinu er ótryggt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×