Erlent

Hryðjuverkamenn í Pakistan kveiktu í 109 vöruflutningabílum

Hryðjuverkamenn kveiktu í hundrað og níu vöruflutningabílum Atlantshafsbandalagsins í Pakistan í morgun, sem voru fulllestaðir af hummerjeppum og öðrum búnaði fyrir hersveitir bandalagsins í Afganistan.

Flutningabílarnir voru í samgöngumiðstöð við höfnina í borginni Peshawar. Lögregla í Pakistan segir að um 30 menn vopnaðir byssum og flugskeytum hafi gert árás í dögun og fellt einn af vörðum við bílana. Lögregla segir að 62 flutningabílar hafi verið brenndir en framkvæmdastjóri við höfnina segir að þeir hafi verið 109, þar af hafi verið 62 flutningabílar fulllestaðir af Hummer jeppum.

Vöruskemman sem ráðist var á er eingöngu ætluð fyrir varning sem flytja á til Afganistan. Herskáar sveitir sem styðja talibana í Afganistan hafa gert ítrekaðar árásir á flutningalestir milli Pakistan og Afganistan í Khyber skarði, sem er mikilvægasta flutningaleiðin landleiðina frá Pakistan til Afganistan.

Talibanar reyna hvað þeir geta að ná yfirráðum yfir skarðinu til að skera á þessa mikilvægu samgönguleið NATO herjanna í Afganistan. Talsmenn NATO segja árásina í morgun ekki hafa teljandi áhrif á framgang þeirra í Afganistan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×