Innlent

Illskárri kostur að kynferðisafbrotamenn fái reynslulausn

Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar segir illskárri kost að kynferðisafbrotamenn fái reynslulausn, en að þeir afpláni fullan dóm því þá sé útilokað að fylgjast með þeim eða skikka í meðferð.

Forstjóri Barnarverndarstofu gagnrýndi dómsmálaráðherra í fréttum okkar í gærkvöldi fyrir seinagang við endurskoðun lagaákvæða sem myndu heimila ákveðnar öryggisráðstafanir - eftirlit og vöktun - sem grípa mætti til þegar kynferðisbrotamenn með barnagirnd á háu stigi hafa lokið afplánun dóms.

Samkvæmt núgildandi lögum er ekki hægt að fylgjast með slíkum mönnum, afpláni þeir allan sinn dóm. Þeir geta því haldið uppteknum hætti sýnist þeim svo. Hins vegar er unnt að veita mönnum reynslulausn eftir að þeir hafa afplánað tvo þriðju síns dóms og þá má skikka þá í sálfræði, læknis- og lyfjameðferð, gera skilyrði um búsetu og fylgjast náið með þeim. Það þykir illskárri kostur.

Refsiréttarnefnd á vegum dómsmálaráðuneytis, sem hyggst skila tillögum fyrir lok þessa mánaðar, skoðar meðal annars ákvæði um aðgerðir sem verndað geta börn og ungmenni gegn kynferðisbrotum. Aðstoðarmaður dómsmálaráðherra segir því að málið sé í réttum farvegi.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×