Erlent

Lýsti skelfingardvöl á Taj Mahal-hótelinu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Telegraph

Breti á sextugsaldri lýsti skelfingardvöl á hótel Taj Mahal í Mumbai fyrir blaðamanni Daily Telegraph.

„Það var óskaplegt að geta ekkert aðhafst vitandi hvað var að gerast innandyra," sagði Mark Coutts-Smith, 53 ára gamall íbúi í Hertfordskíri en hann var gestur á Taj Mahal-hótelinu í Mumbai þegar um það bil tíu hryðjuverkamenn ruddust þangað inn á miðvikudagskvöldið og hófu skothríð fyrirvaralaust.

Smith segir frá því að honum hafi tekist að lauma sér út af hótelinu við fimmta mann eftir að hafa horft upp á hryðjuverkamennina skjóta fjölda manns til bana við sundlaug hótelsins og á göngum þess. Ungur maður hafi til dæmis horft inn í riffilhlaup eins ódæðismannanna en riffillinn staðið á sér og maðurinn tekið til fótanna.

Þá hafi fólk falið sig eftir því sem hægt var á hótelherbergjunum, margir farið inn í fataskápa herbergjanna, brotið úr þeim bakið og þannig komist yfir í næsta herbergi. Skelfingin og ringulreiðin var algjör, að sögn Smiths.

Hann segir enn fremur frá því að sprengjur hafi sprungið fyrir utan hótelið, einu sinni hafi handsprengju verið varpað út um glugga þess en í annað skipti hafi leigubifreið sprungið í loft upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×