Innlent

Hraðvirkari og ódýrari iPhone-sími væntanlegur - Þó ekki á Íslandi

Hraðvirkari og ódýrari iPhone-sími er væntanlegur á markað frá Apple tölvurisanum í yfir sjötíu löndum, þó ekki á Íslandi.

Stjórnarformaður Apple, Steve Jobs, kynnti aðra kynslóð iPhone snjallsímans í gær. Síminn mun hraðvirkari en tæki helstu keppnauta.

Eldri iPhone símar hafa aðeins fengist í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Apple í Bandaríkjunum ræður hvar græjan er seld og hefur vilja einskorða notkun í hverju landi við eitt símafyrirtæki og heimtað hluta af tekjum. Þær kröfur munu aflagðar með nýjum iPhone.

Hann kemur því á markað í tuttugu og einu landi auk Bandaríkjanna ellefta næsta mánaðar, þar á meðal í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, og mun kosta allt að þrjú hundruð bandaríkjadali, jafnvirði rúmlega tuttugu þúsund króna.

Á næstu misserum kemur iPhone síðan á markað í fjörutíu og átta löndum til viðbótar þar sem samningar hafa náðst við símafyrirtækim - þar á meðal í Botsvana, Miðbaugs-Gíneu, og Liechtenstein. Ekki á Íslandi.

Fréttastofa hafði samband við Apple í Bandaríkjunum sem harðneitaði að gefa nokkuð upp um framtíðar söluáform eða hvort viðræður væru áformaðar eða í gangi við íslensk símafyrirtæki.

Humac ehf. hefur einkaleyfi á Apple vörum á Íslandi og í Skandinavíu og rekur Apple búðir þar.

Sigríður Olgeirsdóttir, forstjóri, segir að Apple í Bandaríkjunum hafi náð samkomulagi við símafyrirtækið Telia um þjónustu í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Ekki virðist mikill áhugi á viðræðum á Íslandi þar sem Apple í Bandaríkjunum virðist telja markaðinn of lítinn hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×