Innlent

Engin sjóræningjaskip hafa sést á Reykjaneshrygg

Landhelgisgæslan hefur haft afskipti af sjóræningjaskipum á Reykjaneshrygg en ekki í ár.
Landhelgisgæslan hefur haft afskipti af sjóræningjaskipum á Reykjaneshrygg en ekki í ár. MYND/Landhelgisgæslan

Ekki hefur sést til svokallaðra sjóræningjaskipa á Reykjaneshrygg við eftirlit Landhelgisgæslunnar með karfaveiðum þar að undanförnu. Hins vegar hefur Gæslan sent fjölda tilkynninga til aðildarríkja Norðuaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins þar sem gerða eru athugasemdir vegna skorts á tilkynningum um aflamagn þegar komið er inn á veiðisvæði og umskipun úti á hafi.

Fram kemur í tilkynningu Landhelgisgæslunnar að eftirlitið hafi farið fram bæði innan og utan fiskveiðilögsögu Íslands. Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðið, sem stjórnar veiðum á svæðinu, hefur hert reglur um veiðarnar bæði hvað varðar aflamagn, veiðisvæði og tímabil veiðanna á mismunandi svæðum. Litið er á það sem alvarlegt brot ef upplýsingar um veiðar skipa aðildarríkja eru ekki aðgengilegar í gagnagrunni fiskveiðráðsins og er þá veiðileyfi viðkomandi skips ekki í gildi.

Þá segir Gæslan að nokkrar aðildarþjóðir ráðsins hafa komið þessum málum í lag í kjölfar ábendinga en aðrar ekki. „Veiðar á fiskveiðistjórnunarsvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins, bæði á úthafinu og innan lögsögu, án gilds veiðileyfis eru ólöglegar og samkvæmt íslenskum lögum er bannað að þjónusta skip sem hafa gerst sek um brot á reglum fiskveiðiráðsins. Íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt öllum aðildarríkjum ráðsins að skip þeirra sem uppfylla ekki skilyrði veiðanna sé óheimilt að koma í íslenskar hafnir. Landhelgisgæslan hefur því synjað nokkrum skipum aðildarríkjanna um leyfi til hafnarkomu á Íslandi," segir í tilkynningunni.

Um sjóræningjaskipin, það er skip ríkja sem ekki eiga aðild að fiskveiðiráðinu og veiða í leyfisleysi á yfirráðasvæði þess, segir Gæslan að ráðstafanir gagnvart þeim líti út fyrir að hafa skilað tilætluðum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×