Innlent

Um 350 minkar veiddust í sérstöku átaki

Tæplega 350 minkar veiddust í fyrra í sérstöku tilraunaverkefni á vegum yfirvalda sem ráðist var í til að athuga hvort fýsilegt væri að útrýma mink á Íslandi. Þetta kemur fram á vef umhverfisráðuneytisins.

Átakið stendur yfir á árunum 2007-2009 og liggja fyrstu niðurstöður fyrir en þær verða birtar innan skamms. Tvö svæði urðu fyrir valinu í átakinu, Eyjafjörður og Snæfellsnes, og hefur veiðiálag á svæðunum tveimur verið aukið verulega frá því sem áður var auk þess sem veiðarnar eru með skipulegri hætti.

Við minkaveiðar eru einkum tvær aðferðir notaðar þ.e. gildruveiði og hundaveiði. „Lagðar eru gildrur þar sem von er á umferð minka og hundar notaðir til að þefa uppi bæli minka. Gildrum var fjölgað umtalsvert frá því sem áður var og þær jafnframt lagðar víðar en áður. Áhersla var lögð á að hefja gildruveiðarnar af fullum þunga um mánaðarmótin febrúar/mars og voru gildrurnar hafðar úti út nóvembermánuð. Þeirra var svo vitjað reglubundið allan tímann. Hundaveiði hófst í lok mars á Snæfellsnesi og um mánuði seinna í Eyjafirði og var meginþungi hundaveiðinnar frá apríl til júní en minni eftir það," segir á vef umhverfisráðuneytisins.

Heimtur urðu þær að 204 minkar veiddust á Eyjafjarðarsvæðinu en 145 á Snæfellsnesi. Aðeins eru talin fullorðin dýr en ekki hvolparnir eins og tíðkast hefur víðast. Af samanburði við fyrri ár er ljóst að um allnokkra aukningu er að ræða frá fyrri árum. Hlutfall kvendýra í veiðinni var heldur hærra en hlutfall karldýra, 58 prósent á Eyjafjarðarsvæðinu og 51 prósent á Snæfellsnesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×