Innlent

Nærri sex þúsund nýir bílar á fyrstu fjórum mánuðum

MYND/GVA

Tæplega 5.900 bílar voru nýskráðir hér á landi fyrstu fjóra mánuði ársins og er það 1,3 prósenta aukning frá sama tímabili í fyrra. Þetta sýna nýir hagvísar Hagstofunnar. Síðastliðna 12 mánuði, til loka apríl, voru nýskráningar bíla tæplega 22.300 en það er 13,3 prósenta aukning frá fyrra tólf mánaða tímabili.

Tölur Hagstofunnar leiða enn fremur í ljós að innlend greiðslukortavelta heimila á fyrstu þremur mánuðum ársins jókst um tæp átta prósent. Þar af var kreditkortavelta heimila rúmlega tólf prósentum meiri á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en á sama tíma í fyrra en debetkortavelta jókst um rúm þrjú prósent á sama tíma.

Kreditkortavelta Íslendinga erlendis jókst um 23 prósent en erlend greiðslukortavelta hérlendis dróst hins vegar saman um 9,5 prósent á þessum fyrstu þremur mánuðum ársins miðað við sömu mánuði í fyrra. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 8,7 prósent sem veldur raunlækkun á innlendri greiðslukortaveltu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×