Erlent

Búist við Mugabe á neyðarfund um ástandið í Zimbabwe

Búist er við því að Mugabe forseti Zimbabwe taki þátt í neyðarfundi leiðtoga ríkja í sunnanverðri Afríku til að ræða ástandið í Zimbabwe.

Á götum Harare er fólk farið að verða verulega óþolinmótt. Ekki bara með matarskort, dýrtíð og verðbólgu heldur með það að þó að ellefu dagar séu frá kosningum þá hafa úrslit enn ekki verið birt.

Börn fara ekki í skóla vegna verkfalls og lífið er verulega erfitt segja menn. Ef Mugabe haldi áfram þá þýðir það þrjá mánuði til viðbótar án skólagöngu. Verið sé að eyðileggja landið. Það viti allir að Mugabe og menn hans hafi tapað. Ef stjórnarflokkurinn hefði unnið þá hefði verið tilkynnt um það eftir einn eða tvo daga.

Á neyðarfundi leiðtoga í sunnanverðri Afríku á laugardag má búast við miklum þrýstingi á Mugabe að annað hvort draga sig í hlé eða tryggja að rétt úrslit verði birt. Þó að ekki sé hefð fyrir því á svæðinu að leiðtogar ríkja gagnrýni kollega sína opinberlega þá sýnir það að boðað er til neyðarfundar um málið að nágrönnum Zimbabwe er farið að þykja nóg um ástandið í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×