Innlent

Berst við hvítblæði með bjartsýni að vopni

Sigrún með dóttur sína. Mynd/ úr einkasafni.
Sigrún með dóttur sína. Mynd/ úr einkasafni.

Versti parturinn við að upplifa beinmergsskipti er geislameðferðin. Þetta segir Sigrún Þórisdóttir, 25 ára gömul móðir, sem greindist með hvítblæði ekki alls fyrir löngu. Sigrún lagði land undir fót í byrjun maí og fór til Svíþjóðar í beinmergsskipti.

„Svo ekki á morgun heldur hinn fer ég á einhvern annan spítala í Stokkhólmi þar sem ég verð rannsökuð og reiknuð út fyrir geislameðferðina sem er líklega á föstudag og laugardag. Það er víst versti parturinn af þessu. Svo eftir geislameðferðina fer ég í lyfjameðferð og með þessum tveimur meðferðum á að klára að eyða öllum mínum beinmerg og ég fæ nýjan," sagði Sigrún á bloggsíðu sinni daginn fyrir brottför til Svíþjóðar.

Þegar Vísir hafði samband við Sigrúnu í morgun lét hún engan bilbug á sér finna enda hefur allt gengið vel hingað til. „Það er búið að gefa mér beinmerginn og ég er að bíða eftir því að hann fari að starfa," segir Sigrún. Hún segist hafa fengið smá aukaverkanir eftir beinmergsskiptin en sé mjög bjartsýn. „Það þýðir ekkert annað," segir hún.

Sigrún fór ekki einsömul til Svíþjóðar heldur fylgdu foreldrar hennar, barnsfaðir og átta mánaða gömul dóttir hennar. Sigrún segir að vel gangi með litlu hnátuna og læknarnir hafi verið hrifnir af því að hún væri með. Þær hafa þó verið aðskildar undanfarna daga vegna þess að sú stutta hefur verið með hita og má því ekki fara til mömmu sinnar á spítalann.

Sigrún segir að ef allt gangi vel verði hún líklega á spítala í eina til eina og hálfa viku í viðbót. „Síðan fæ ég að búa í íbúð í Svíþjóð," segir Sigrún, sem býst við því að koma til Íslands í ágúst.

Það er dýrt fyrir stóra fjölskyldu að flytja búferlum í mánaðalanga sjúkrahúsreisu til Svíþjóðar. Vinkonur Sigrúnar safna því til styrktar henni og fjölskyldu hennar. Reikningsnúmerið er 0120 26 4029 og kennitalan 160383-4029.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×