Erlent

Segja Bandaríkjamenn hafa rofið lofthelgi Venesúela

Hugo Chavez, forseti Venesúela.
Hugo Chavez, forseti Venesúela.

Stjórnvöld í Venesúela eru æf út í Bandaríkjamenn sem þau segja að hafi rofið lofthelgi landsins um helgina. Varnarmálaráðherra landsins, Gustavo Rangel, segir að þota frá bandaríska hernum hafi flogið yfir eyju úti fyrir strönd landsins sem tilheyri Venesúela.

Hann segir að fylgst hafi verið með vélinni fara inn í lofthelgina og að samtöl flugturns við flugmann vélarinnar séu til, þessu til sönnunar. Herstöð er á eyjunni og því er litið á málið alvarlegum augum af heimamönnum. Bandaríski flugmaðurinn er sagður hafa gefið þær skýringar að hann væri í æfingaferð og að hann hafi ekki áttað sig á því að hann væri í lofthelgi landsins.

Rangel segir að sendiherra Bandaríkjanna í Venesúela verði kallaður fyrir til að gefa skýringar á ferð vélarinnar og hann er á því að atvikið sé enn ein tilraun Bandaríkjamanna til að ögra Chavez forseta og hans mönnum en andað hefur köldu á milli landanna tveggja allt frá því Hugo Chavez komst til valda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×