Erlent

Ráðstefna 100 ríkja um bann við klasasprengjum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Á götu í Beirut, höfuðborg Líbanon.
Á götu í Beirut, höfuðborg Líbanon. MYND/AP

Fulltrúar rúmlega 100 ríkja hófu í dag tveggja vikna langa ráðstefnu í írsku höfuðborginni Dublin þar sem fjallað verður um ráðstafanir til að banna notkun svokallaðra klasasprengja sem Alþjóða rauði krossinn hefur nefnt „þrálátt mannkynsvandmál".

Sprengjum þessum er varpað úr flugvélum og skipta þær sér upp í hundruð minni sprengja sem valdið geta tjóni löngu eftir að þær lenda á jörðu þar sem allt að 40 af hundraði þeirra springa ekki við lendingu. Þær geta hins vegar auðveldlega sprungið við hvers kyns rask, t.d. ef stigið er á þær.

Ósprungnar klasasprengjur hafa drepið rúmlega 250 manns í Líbanon síðan árið 2006 þegar Ísraelsmenn vörpuðu um fjórum milljónum þeirra yfir landið. Alþjóða rauði krossinn áætlar að allt að ein milljón þeirra liggi þar um akra og tún ósprungnar.

CNN greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×