Erlent

Bandaríkin senda herafla og hjálpargögn áleiðis til Georgíu

Bandaríkjaforseti sagði í dag að stjórn sín myndi nota bæði flugher og landher til að koma hjálpargögnum og lyfjum til Georgíu. Georgíuforseti segist líta svo á að þar með verði flugvellir og hafnir í Georgíu undir bandarískri stjórn og hervernd. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna er á leið til Georgíu til að sýna stuðning Bandaríkjastjórnar í verki.

Bandaríkjaforseti var ómyrkur í máli í garð Rússa í dag, eins og helstu bandamenn hans í Evrópu hafa verið síðustu daga, og er greinilega vantrúaður á heilindi Rússa á Kákasus-svæðinu

Uppreisnarmenn frá Suður-Ossetíu hafa í dag farið með ránum og ofbeldi um hús og garða Georgíumanna í Tskhinvali og eru greinilega í hefndarhug. Jafnframt fara georgískir hermenn um og ógna Ossetum. Í Gori í mið-Georgíu hafa rússneskir hermenn dag lagt í rúst georgískar herstöðvar - sem strangt tiltekið er brot á vopnahléssamkomulaginu frá í gær - og ætla greinilega að ganga endanlega frá georgíska hernum áður en þeir fara heim.

Fjármálaráðherra Rússa sagði í dag að Rússar muni verja að minnsta kosti 32 milljörðum króna til að endurbyggja ossetíska höfuðstaðinn Tskhinvali sem er í rústum eftir bardagana. Hann lofaði því einnig 160 þúsund króna skaðabótum til hvers íbúa sem orðið hefði fyrir tjóni í bardögunum.

Þetta mun augljóslega styrkja enn frekar efnahagstengsl Rússlands og Ossetíu - og þá ekki síður rússnesk gasleiðsla sem verið er að leggja til Tskhinvali. Íbúar í höfuðstaðnum voru um 35 þúsund.

Og þegar byssurnar þagna - smám saman - byrja menn að kenna um. Rússum er þegar kennt um að hafa farið offari í þessu stríði - en Saakashvili forseti Georgíu fær áreiðanlega einnig sinn skammt. Hann veðjaði á að her sinn gæti gengið milli bols og höfuðs á uppreisnarmönnum í Ossetíu - en tapaði illilega.

Nú er enn ólíklegra en áður að Georgíu takist að halda í aðskilnaðarhéröðin tvö, Suður-Ossetíu og Abkhazíu - að minnsta kosti ekki með góðu. Hvort Saakashvili tekst að halda völdum er önnur saga.














Tengdar fréttir

Saka Rússa um að rjúfa vopnahlé

Georgíumenn sökuðu í dag Rússa um að rjúfa vopnahlé sem samþykkt var í gær með því að senda hersveitir frá Suður-Ossetíu inn í Georgíu og í átt til höfuðborgarinnar Tblisi.

Vopnahlé samþykkt í Georgíu

Rússar og Georgíumenn samþykktu í gær vopnahlé eftir fund með Nicholas Sarkozy Frakklandsforseta.

Skemmdarverk og rán í Gori

Fregnir berast nú af því að rússneskir skriðdrekar hafi sést á ferli í borginni Gori í Georgíu. Samkvæmt fréttavef BBC vinna Rússar nú að því að rústa herstöðvum Georgíumanna þar í borg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×