Erlent

Vopnahlé samþykkt í Georgíu

Rússar og Georgíumenn samþykktu í gær vopnahlé eftir fund með Nicholas Sarkozy Frakklandsforseta.

Enn er verið að ræða smáatriði í friðaráætluninni en drög að henni voru samþykkt í gær. Mikhail Saakashvili Georgíuforseti sagði að ýmiss smáatriði sem Rússar höfðu farið fram á í samningnum væru óásættanleg og að fara þyrfti ítarlegar yfir samkomulagið. Sarkozy segir að utanríkisráðherrar ESB ríkja muni fara yfir samkomulagið í dag og það verði svo kynnt öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Fyrr í gær drógu Rússar herlið sitt aftur frá Georgíu og tilkynntu að hernaðaraðgerðum sínum í landinu væri lokið. Stjórnmálaskýrendur segja hins vegar að langt sé í að varanlegur friður náist í landinu. Stríðsátök hófust í Suður-Ossetíu héraðinu í Georgíu aðfararnótt föstudagsins.

Rússar segja að þúsundir manna hafi fallið í átökunum og talið er að minnsta kosti 100 þúsund manns hafi þurft að yfirgefa heimili sín. Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, lýsti í gær yfir þjóðarsorg í Rússlandi vegna þeirra sem hafa fallið og sakaði um leið Georgíumenn um þjóðhreinsanir í Suður - Ossetíu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×