Innlent

Háskóli Íslands í mjög þröngri stöðu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands.
Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands getur ekki tekið á móti 1600 nýjum nemum og þolað niðurskurð um einn milljarð króna á sama tíma, segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að framlög til Háskóla Íslands verði skorin niður um 900 milljónir króna. Kristín segir að skólinn sé í mjög þröngri stöðu.

Á sama tíma er metumsókn um nám í skólann, en rösklega 1600 manns sótt um nám á vormisseri 2009. Fyrir eru í skólanum rösklega 12 þúsund nemendur og nemur fjöldi umsókna því um 13% af öllum nemendum Háskóla Íslands.

Kristín segir að á þessari stundu sé ekki hægt að svara því hversu marga umsækjendur hægt verður að taka inn í Háskólann á vorönn. Ljóst sé að standa þurfi vörð um nám þeirra sem þegar séu í skólanum. Ekki komi til greina að svara aukinni eftirspurn um skólavist með því að slá af kröfum um gæði náms. „Við getum því ekki tekið við öllum umsækjendum nema að fá framlag til að mæta því," segir Kristín.

Kristín bendir á að skólinn hafi verið hvattur til að sýna samfélagslega ábyrgð í þeirri stöðu sem blasi við þjóðfélaginu. Því hafi reglur um umsóknir í skólann á vormisseri verið víkkaðar mjög. Fleiri deildir taki við nýnemum á vorönn nú en áður og umsóknarfrestur hafi verið framlengdur. Það sé svo verkefni skólans að finna út úr því hversu mörgum nýnemum verður hægt að taka við.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.