Innlent

Fyrrverandi blaðamaður DV segist hafa verið ritskoðaður

Símon Birgisson fyrrverandi blaðamaður DV.
Símon Birgisson fyrrverandi blaðamaður DV.

Símon Birgisson fyrrverandi blaðamaður á DV segist hafa verið ritskoðaður þegar hann starfaði hjá blaðinu sumarið 2005. Þá hafi hann skrifað tvær fréttir sem snertu ákæruliðina í Baugsmálinu auk viðtala við Jón Ásgeir Jóhannesson og föður hans. Í kjölfarið sagði Símon upp störfum á blaðinu.

Frá þessu segir Símon á bloggsíðu sinni. Fram kemur í frásögn hans að í þau þrjú ár sem hann starfaði á blaðinu hafi hann aðeins einu sinni lent í því að vera beittur því sem kalla mætti ritskoðun. Þá voru þeir Mikael Torfason og Jónas Kristjánsson ritstjórar DV.

„Þann þriðja ágúst kemst ég að því að Fréttablaðið hafði bæði einhvern hluta ákæruskjala undir höndum auk tveggja viðtala um ákæruatriðin - við Jón Ásgeir Jóhannesson og föður hans," skrifar Símon á bloggi sínu.

Símon segir að bæði viðtölin og upplýsingarnar um ákæruatriðin, sem Fréttablaðið hafði undir höndum hafi verið eitthvað sem blaðamenn myndu kalla „skúbb".

„Þrátt fyrir fréttagildi efnisins hafði það ekki verið birt. Fréttaritstjóri Fréttablaðsins viðurkenndi síðar að siðareglur blaðsins hefðu verið brotnar en minntist ekki á hve lengi blaðið hafði haft efnið undir höndum áður en það var birt. Ég skrifaði tvær greinar um málið sem hvorugar voru birtar og á endanum skrifaði ég uppsagnarbréf og lagði á borð ritstjóranna tveggja," skrifar Símon á bloggsíðu sinni.

Síðan fer Símon yfir þessar tvær fréttir sem hann skrifaði um málið í DV og ástæður þess að greinarnar voru ekki birtar.

Hægt er að lesa frekar um málið á bloggsíðu hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×