Innlent

Bílþjófar sífellt betur útbúnir

Bílaþjófar eru sífellt betur útbúnir. Dæmi eru um að þjófar hafi tekið allt nýtilegt úr stolinni bifreið og skilið einungis flakið eftir. Á Íslandi er að meðaltali brotist inn í einn bíl á dag samkvæmt afbrotatölfræði Ríkislögreglustjóra.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur það aukist á undanförnum árum að bílaþjófar séu útbúnir vírum eða þar til gerðum teinum sem auðveldar þeim að komast inn í læsta bíla. Oftast eru þó rúður einfaldlega brotnar.

Í flestum tilvikum eru þjófar að stela bílum til að nota þá í stutta stund. Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, segir lögregluna vita líka til þess að menn séu að stela bílum til þess að ná úr þeim varahlutum og sameina stolna bílinn við þann sem þeir eiga fyrir. Þjófarnir taka þannig allt nýtilegt úr bílnum og afmá öll númer til þess að ekki sé hægt að rekja slóð þeirra.

Sumir reyna jafnvel að flytja bílana í heilu lagi til útlanda þar sem reynt er selja þá. ,,Við vitum dæmi þess að það hafi verið farið með norrænu með bíl erlendis. Í einu tilfelli náðum við að stöðva það af þegar skipið var komið til Danmerkur, þá náðum við að stoppa það af en það voru grunsemdir um að það hefði tekist í einhverjum tilfellum," segir Geir Jón.






Tengdar fréttir

Háskólaprófessor svikinn af tryggingafélagi

Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Háskóla Íslands, varð fyrir því óláni í byrjun mánaðarins að bíl hans, tólf ára gömlum RAV jepplingi, var stolið. Tryggingafélag Ingvars neitar hins vegar að greiða honum tjónið þar sem ekki sáust skýr merki um innbrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×