Innlent

Háskólaprófessor svikinn af tryggingafélagi

Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Háskóla Íslands, varð fyrir því óláni í byrjun mánaðarins að bíl hans, tólf ára gömlum RAV jepplingi, var stolið. Tryggingafélag Ingvars neitar hins vegar að greiða honum tjónið þar sem ekki sáust skýr merki um innbrot.

Ingvar tilkynnti þjófnaðinn til lögreglu og tíu dögum síðar hafði lögreglan samband við hann. Þá hafði bíllinn fundist allur rústaður að innan.

Þjófarnir höfðu á brott með sér öll verðmæti sem voru í bílnum, þar á meðal þrenn gleraugu og gönguskó en Ingvar metur tjónið á tæpar tvö hundruð þúsund krónur.

Bíllinn var í kaskó hjá Vátryggingafélagi Íslands en auk þess er Ingvar með heimilistryggingu hjá sama tryggingafélagi. Þegar hann hugðist fá tjónið bætt kom hins vegar babb í bátinn.

Tryggingarfélagið neitar að greiða Ingvari bætur fyrir það sem var í bílnum vegna þess að engin merki fundumst um hvernig farið var inn í bílinn. Ef bílrúðan hefði hins vegar verið brotin þá hefði Ingvar fengið tjónið bætt.

Samkvæmt upplýsingum frá Vátryggingafélagi íslands hvílir sönnunarbyrði á tryggingartaka þegar um innbrot í bíl er að ræða. Sjáist ekki skýr merki um innbrot - er tjón ekki bætt.

Þjófar skilja þó ekki alltaf eftir sig ummerki þegar þeir brjótast inn í bíla samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Ingvar segir ljóst að með þessu ákvæði sé tryggingafélagið að skapa sér undankomuleið. Hann segir jafnvel nauðsynlegt að biðja þjófa framvegis að skilja eftir sig skýr ummerki - meðal annars með því að brjóta rúðu.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×